Handbolti

Einar Jónsson: Menn sýndu að við getum verið mjög góðir

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Valli
"Þeir sem voru að koma til félagsins stóðu sig frábærlega og líka þeir sem við höfðum fyrir," sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir að liðið vann fimm marka sigur á Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika í kvöld. Sannkölluð óskabyrjun hjá Safamýrarliðinu sem tefldi fram mörgum nýjum leikmönnum sem svo sannarlega stóðu fyrir sínu.

"Við erum bara með flott lið og menn sýndu það í dag að við getum verið mjög góðir. Það sem við lögðum upp með fyrir leikinn gekk nánast fullkomlega upp svo ég er mjög sáttur."

Framarar voru með þægilega forystu nánast allan leikinn og FH-ingar ógnuðu þeim lítið. "Ég var nú ekki rónni fyrr en það var svona mínúta eftir. FH liðið er bara svo gott að við gátum ekki leyft okkur að slaka á eins og mér fannst við gera á 5-10 mínútna kafla í seinni hálfleik. Þá bara sýndu þeir að þeir geta valtað yfir okkur. Við héldum haus og kláruðum þetta með miklum sóma," sagði Einar.

"Við spiluðum mjög góða vörn og ég gleðst yfir því. Við erum að vinna markvisst að varnarleiknum hjá okkur og ætlum okkur að vera sterkir varnarlega. Við vorum mjög "massívir" og markvarslan kom líka með."

Framarar misstu Róbert Aron Hostert en hann meiddist á baki og var fluttur með sjúkrabíl í hálfleik. "Hann lenti mjög illa eftir mjög ljótt brot. Ég veit ekki alveg hversu alvarlegt það er en hann var sárþjáður,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×