Innlent

Kristni í lagi meðan fólk fer ekki í kirkju

Frá Gay Pride.
Frá Gay Pride.
„Staðreyndin er sú að málflutningur á borð við þann sem Friðrik stendur fyrir veldur því að samkynhneigð ungmenni jafnt á Íslandi sem um heim allan líða miklar kvalir og í versta falli fremja sjálfsmorð því einhver prestur segir þeim að tilfinningarnar sem þau eru að upplifa séu ekki Guði þóknanlegar. Það eru þung og erfið skilaboð fyrir óharðnaða unglinga," skrifar Guðmundur Helgason, formaður samtaka 78´, og svarar grein sem Friðrik Schram, prestur Kristskirkjunnar í Reykjavík, ritað og birti í Fréttablaðinu og á Vísi í gær.

Friðrik vildi þá meina að hann hefði verið hafður fyrir rangri sök í grein sem birtist í Fréttablaðinu fyrr í mánuðinum. Hann sagðist ekki líta á samkynhneigð sem synd, en væri á móti samlífi þeirra.

Á móti skírir Guðmundur grein sína: „Kristni í lagi svo fremi að fólk fari ekki í kirkju!"

Guðmundur bætir við að þetta sé þó ekki hans skoðun. „En fullyrðingin er álíka gáfuleg og sú að samkynhneigð sé í lagi á meðan fólk stundi ekki kynlíf með sama kyni," skrifar Guðmundur.

Friðrik skrifaði enn fremur í grein sína að nú væri staðan sú að þeir sem væru á móti samkynhneigð sættu fordómum í samfélaginu.

Guðmundur svara því til að það sé rangt.

„Fólk er einfaldlega á móti hatursáróðri, jafnvel þegar hann er kynntur undir rósinni „elskið syndarann en fordæmið syndina."

Ástæðan fyrir því að Friðrik skrifaði grein sína í blaðið í gær var helst vegna þess að Reykjavíkurborg hafnaði því að styrkja kirkjuna um byggingastyrk sem búið var að ánafna kirkjunni. Fór borgin þar að ráðleggingum mannréttindaráðs sem taldi viðhorf safnaðarins gagnvart samkynhneigðum ekki samræmast gildum ráðsins.

Hægt er að lesa grein Guðmundar í heild sinni hér fyrir neðan. Grein Friðriks má svo lesa í viðhengi með fréttinni.

Kristni í lagi svo fremi að fólk fari ekki í kirkju!

Nei – þetta er ekki skoðun undirritaðs en fullyrðingin er álíka gáfuleg og sú að samkynhneigð sé í lagi á meðan fólk stundi ekki kynlíf með sama kyni. Er ég einn um að finnast þessi áhugi Friðriks Schram og fleiri presta á kynlífi samkynhneigðra eitthvað skrýtinn? Samkynhneigðir stunda kynlíf já, en við stundum líka nám, vinnu og skemmtistaði, pöntum pítsu, förum í bíó, horfum á sjónvarp, ræktum vini okkar og fjölskyldu – já, við lifum bara svipuðu lífi og flestir aðrir.

Miklu púðri er eytt í að reyna að koma í veg fyrir að fólk stundi kynlíf með sama kyni en eitthvað ber minna á mótmælum gegn kynlífi gagnkynhneigðra utan hjónabands, barneignum utan hjónabands, skilnuðum... ég gæti haldið áfram. Allt eru þetta „syndir" samkvæmt hinni 2000 ára gömlu bók sem sífellt er vitnað í þegar berja skal á samkynhneigðum. Já, berja því það mætti halda að forsvarsmenn kirkjusafnaða eins og Kristskirkjunnar séu í heilögu stríði gegn samkynhneigð. Er kannski auðveldara að berja á hommunum heldur en hinum gagnkynhneigða meirihluta? Má ég minna á að ekki eru allir sömu trúar og margir sem ekki trúa á neinn Guð. Er í lagi að kúga það fólk í nafni sinnar eigin trúar?

Á vefsíðu Kristskirkjunnar er greinasafn Friðriks Schram þar sem meðal annars má sjá greinartitilinn „Foreldrar gætið barnanna ykkar fyrir Samtökunum 78." Því miður vísar þessi tengill í aðra grein því ég er mjög forvitinn að heyra hvað það er nákvæmlega sem samtökin sem ég er í forsvari fyrir hafa gert börnum landsins. Ég held að það sé margt annað sem mætti vara foreldra við en Samtökin '78.

Samtökin eru með öflugt ungliðastarf undir sínum verndarvæng og mér hefur verið tjáð af móður að ungliðahópurinn hafi bjargað barni hennar því engir voru vinirnir í skólanum. Er það þetta sem foreldrar eiga að passa börnin sín fyrir? Að þau eignist vini og JAFNINGJA? Kynnist öðrum hinsegin ungmennum sem eru að upplifa svipaðar tilfinningar? Þá bjóða Samtökin '78 einnig uppá fría félagsráðgjöf fyrir þá sem þess óska og er ekki vanþörf á meðan fólk mætir svona fordómum.

Staðreyndin er sú að málflutningur á borð við þann sem Friðrik stendur fyrir veldur því að samkynhneigð ungmenni jafnt á Íslandi sem um heim allan líða miklar kvalir og í versta falli fremja sjálfsmorð því einhver prestur segir þeim að tilfinningarnar sem þau eru að upplifa séu ekki Guði þóknanlegar. Það eru þung og erfið skilaboð fyrir óharðnaða unglinga. Samtökin '78 hafa ekki stundað að berjast gegn hópum eða félagasamtökum með vopnum og ekki stendur til að byrja á því núna. Við svörum þegar á okkur hallar eða ráðist er á hinsegin fólk. Friðriki finnst fólk vera með fordóma gagnvart sér og sínum skoðunum en það er rangt. Fólk er einfaldlega á móti hatursáróðri, jafnvel þegar hann er kynntur undir rósinni „elskið syndarann en fordæmið syndina."

Guðmundur Helgason, formaður Samtakanna '78


Tengdar fréttir

Samkynhneigðir bjóða Friðriki í heimsókn

Prestur íslensku krists-kirkjunnar í Reykjavík segir kynlíf einstaklinga af sama kyni vera rangt. Formaður Samtakanna 78 segir prestinn breiða út fordóma og skorar á hann að kíkja í heimsókn og fræðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×