Innlent

Árni Þór hefði getað hálsbrotnað og lamast

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna, hefði getað beðið mikinn skaða við þingsetninguna á laugardag og jafnvel hálsbrotnað og lamast, segir læknir á slysa- og bráðadeild Landspítalans.

Það rigndi ekki bara ósoðnum eggjum yfir þingmenn á laugardaginn því mótmælendur eru einhverjir farnir að leggja það á sig að sjóða egg sín áður en haldið er niður á Austurvöll og samkvæmt heimildum fréttastofu fékk þingmaður í sig grjót við þingsetninguna.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna, fékk egg í gagnaugað, með þeim afleiðingum að hann hné niður og þurftu þingmenn að koma honum til aðstoðar.

Svanur Sigurbjörnsson, læknir, segir að með aðeins meiri óheppni hefði Árni getað orðið fyrir miklum skaða og jafnvel hálsbrotnað og lamast.

Það er kominn heilmikill kraftur þegar egg þeystist um loftið á miklu hraða, það getur valdið honum þessum skaða

Svanur segir að skrílslæti og ofbeldi séu alls ekki leiðin til þess að leysa vanda þjóðarinnar.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði aðspurður í samtali við fréttastofu um hvers vegna enginn hafi verið handtekinn í mótmælunum á laugardaginn að mat lögreglunnar til þessa hafi verið það að gera ekki ástandið ekki verra en það er, með fjöldahandtökum.

Lögreglan hafi stöðvað einhverja mótmælendur sem grýttu eggjum, en erfitt sé að finna þá einstaklinga sem það gera í svo stórum hópi. Mótmælin á laugardaginn eru í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×