Innlent

Ákveður í vikunni hvort Guðmundar- og Geirfinnsmál verði tekin upp

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist ætla að ákveða hvort Guðmundar- og Geirfinnsmálin svokölluðu verði tekin til rannsóknar að nýju, fyrir vikulok. Málin hafa aftur komist í hámæli eftir umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 og Íslands í dag í gær þar sem greint var frá dagbókarfærslum Tryggva Rúnars Leifssonar sem var einn sakborninga í málinu og hlaut að lokum 13 ára fangelsisdóm fyrir að hafa banað Guðmundi Einarssyni. Ögmundur var spurður út í málið í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og þar sagðist hann ætla að ákveða um framhaldið í þessari viku.

Tryggvi Rúnar hélt dagbækur þegar hann sat í gæsluvarðhaldi. Þar greindi hann frá öllu því sem átti sér stað meðal annars samskiptum við fangaverði, rannsakendur og lækna. Tryggvi lést úr krabbameini fyrir tveimur árum en hann hefði orðið sextugur í gær, annan október. Dagbækurnar hafa verið í vörslu dóttur Tryggva, en upplýsingar úr þeim hafa aldrei verið birtar opinberlega fyrr en nú.

Gísli Guðjónsson einn af fremstu réttarsálfræðingum í heiminum í dag sagði í gær nauðsynlegt að rannsaka málin upp á nýtt í ljósi dagbókanna. Gísli hefur komið að allt að þúsund sakamálum á sínum ferli og þykir einn hæfasti á sviði falskra játninga. Hann hefur aldrei tjáð sig opinberlega um Guðmundar-og Geirfinnsmálið fyrr en nú. Hann telur að með tilkomu dagbókanna sé tilefni til að hefja rannsókn á þessu máli að nýju. Gísli hefur lesið dagbækurnar sem ná frá lok október 1976 til loka ársins 1977.


Tengdar fréttir

Ný gögn í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu kalla á rannsókn

Einn sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu lýsti ítrekað yfir sakleysi sínu í dagbókarfærslum sem hann ritaði á meðan hann sat í einangrun í Síðumúlafangelsinu í tvö ár, 24 ára að aldri. Upplýsingarnar úr dagbókunum hafa aldrei birst opinberlega. Gísli Guðjónsson einn fremsti réttarsálfræðingur í heimi segir nauðsynlegt að rannsaka málið að nýju í ljósi dagbókanna með tilliti til falskra játninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×