Viðskipti erlent

Svíar mestu búðaþjófarnir á Norðurlöndunum

Svíar eru mestu búðaþjófarnir á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin var á vegum öryggisþjónustunnar Checkpoint Systems.

Næst á eftir Svíum kom svo Norðmenn, Finnar eru í þriðja sæti og Danir í því fjórða. Ekki er getið um Ísland í þessari rannsókn.

Búðaþjófnaður í Svíþjóð er talinn nema um 6,4 milljörðum sænskra kr. eða um yfir 110 milljarða kr. á ári. Þetta samsvarar 1,4% af veltu verslana í landinu. Þessi þjófnaður kostar hvern Svía tæplega 800 sænskar kr. eða um 13.000 kr. árlega í hækkuðu vöruverði.

Vinsælast í Svíþjóð er að stela matvöru eins og kjöti og ostum en snyrtivörur eru einnig ofarlega á lista sænskra búðarþjófa. Engar haldbærar skýringar eru til á því afhverju Svíar verma efsta sætið í þessum efnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×