Viðskipti erlent

Margir vilja Iceland foods - Walker bíður átekta

Malcom Walker í viðtali við Stöð 2.
Malcom Walker í viðtali við Stöð 2.
Malcom Walker, forstjóri og stofnandi, Iceland foods verslanakeðjunnar í Bretlandi, mun ekki bjóða í hlutafé félagsins í fyrstu umferð söluferlisins sem slitastjórn gamla Landsbankans og Glitnis ætla að hefja á næstunni samkvæmt heimildum breska dagblaðsins The Telegraph.

Walker á nú þegar tuttugu og þriggja prósentu hlut í Iceland en margir héldu hann ætla að kaupa þau sjötíu og sjö prósent sem bú gömlu bankana ætla nú að selja.

Í samningi Walker við hluthafa félagsins er kveðið á um að hann þurfi einungis að jafna hæsta tilboðið í félagið til að hreppa fenginn. Það þýðir því lítið fyrir hann að bjóða í félagið snemma í söluferlinu. Talið er að hann muni bíða með kauprétt sinn þar til á síðari stigum ferlisins.

Í Telegraph segir að tuttugu fjárfestar hafi fengið upplýsingar um söluna en ekki sé fullvíst að einhver bjóði í allan hlut bankana í fyrstu umferð söluferlisins, en keðjan telur sjö hundruð og áttatíu búðir.

Þá segir Telegraph að líklegustu kaupendur keðjunnar séu verslunarkeðjunar Morrisons og Asda. Hins vegar sé það víst að þær vilji ekki kaupa allan hlut bankana heldur vilji eingöngu eignast einhvern hlut í fyrirtækinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×