Innlent

Rannsakar þolendur snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri

Margir þeirra sem lentu í snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri fyrir 16 árum og aðstandendur þeirra þjást enn af áfallastreituröskun og öðrum kvillum sem rekja má til hamfaranna. Þetta kemur fram í nýrri doktorsritgerð Eddu Bjarkar Þórðardóttur, doktorsnema í lýðheilsuvísindum og sálfræði við Háskóla Íslands.

Edda kynnti í dag frumniðurstöður rannsóknar á langtíma heilsufarslegum afleiðingum snjóflóðanna sem féllu í Súðavík og á Flateyri árið 1995 á þolendur þeirra, en hún segist sjá vísbendingar þess að eftirköstin geti verið langvinn.

Sem dæmi um eftirköst nefnir Edda endurupplifun áfallsins, flótta frá hugsunum og atburðum sem tengist áfallinu, og ofurárvekni. Þá voru þolendurnir einnig líklegri en aðrir til að meta heilsu sína slæma og þjást af ýmsum heilsufarslegum kvillum.

Hlutfall þessara einstaklinga þykir fremur hátt miðað við sambærilegar erlendar rannsóknir, en Edda segir einmitt skort vera á þeim. „Flestar rannsóknir eru að kanna tíðni einkenna áfallastreitu einu til tveimur árum eftir áfallið, en við vitum lítið um langtíma framvindu áfallastreitu."

Markmið Eddu með rannsókninni er að bæta eftirfylgni við þolendur náttúruhamfara og aðra sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum. „Við náttúrulega búum á Íslandi og það má búast við því að náttúruhamfarir verði hér aftur."

Doktorsritgerðin verður fullunnin í vor og þá verða niðurstöður hennar kynntar bæði í Reykjavík og fyrir Vestan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×