Viðskipti erlent

Sala Iceland Foods jókst um 10% milli ára

Aukningin í sölunni hjá Iceland Foods verslunarkeðjunni nam 10% á þriða ársfjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Aukning er 4,5% frá öðrum ársfjórðungi ársins.

Þetta kemur fram í nýrri könnun hjá Kantar Worldpanel sem greint er frá á Reuters. Þar segir að veruleg söluaukning hafi orðið hjá svokölluðum lágvöruverðsverslunum í Bretlandi á Þessu ári á kostnað stærri verslunarkeðja. Erfitt efnahagsástand í landinu er orsök þessa. Efnahagsástandið gerir það að verkum að almenningur sparar við sig í matarkaupum og sækir meira í lágvöruverslanir.

Mesta aukningin á sölunni milli ára varð hjá Aldi eða um 25% en næst þar á eftir koma Iceland með 10,8% aukningu og Lidl með 10,5% aukningu. Söluaukningin hjá risunum fjórum á dagvörumarkaðinum í Bretlandi, það er Tesco, Asda, Sainsbury og Morrison lá hinsvegar á bilinu 2% til 6%.

Sem kunnugt er af fréttum er Iceland Foods nú í söluferli en skilanefnd Landsbankans heldur á um 66% hlut í keðjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×