Innlent

Krefst gæsluvarðhalds yfir þremur meintum búðaþjófum

GS skrifar
Miklu magni var stolið úr Smáralind.
Miklu magni var stolið úr Smáralind.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar að krefjast gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir þremur útlendingum, sem eru búsettir hér á landi, vegna mjög umfangsmikils búðaþjófnaðar að undanförnu.

Málið hófst fyrir helgi, þegar einn þeirra var tekinn við búðahnupl, en það vatt upp á sig og voru tveir til viðbótar teknir til yfirheyrslu. Í framhaldi af því var ráðist í húsleitir í nokkrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu í gær og fannst þar allstaðar mikið af þýfi. Þýfið er nær eingöngu dýr fatnaður, einkum merkjafatnaður og var miklu af því stolið úr verslunum í Smáralind og í Kringlunni.

Að sögn lögreglu hleypur andvirði þýfisins á háum upphæðum, jafnvel tugum milljóna og liggur nú fyrir að rannsaka hvað þjófarnir hugðust fyrir með þýfið, til dæmis hvort þeir hafa ætlað það til sölu innanlands eða til útflutnings, því magnið er langt umfram þarfir þeirra og fjöldskyldna þeirra um ókomna framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×