Enski boltinn

Dalglish: Allir í Liverpool standa algjörlega við bakið á Suarez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez og Patrice Evra.
Luis Suarez og Patrice Evra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, sagði það á blaðamannfundi fyrir Norwich-leikinn á morgun að allir hjá Liverpool standi við bakið á Úrúgvæmanninum Luis Suarez. Patrice Evra sakaði Suarez um kynþáttarníð í leik Liverpool og Manchester United um síðustu helgi.

„Það eina sem ég vil segja um þetta mál er að þessi fótboltaklúbbur og allir innan hans standa algjörlega á bak við Luis Suarez," sagði Kenny Dalglish en leikmaðurinn sjálfur hefur neitað að hafa kallað Evra þeim nöfnum sem franski bakvörðurinn heldur fram.

„Okkur hlakkar til að sjá ítarlega og gegnsæja skýrslu um málið og við munum aðstoða við hana eins mikið og þörf þykir," sagði Dalglish.

Enskir fjölmiðlar hafa skrifað um það að gæti verið erfitt fyrir Patrice Evra að sanna ásakanir sínar en ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að að Suarez hafi sagt eitthvað miður fallegt við Frakkann.

Það sást hinsvegar vel í sjónvarpsútsendingu frá leiknum að Patrice Evra var eitthvað illa upplagður í þessum leik og farinn að deila við dómara leiksins áður en leikurinn hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×