Viðskipti erlent

Ekkert að því að leita til Kínverja

Jean-Claude Trichet, fráfarandi seðlabankastjóri Evrópu.
Jean-Claude Trichet, fráfarandi seðlabankastjóri Evrópu.
Fráfarandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, segir það vera eðlilegt að leita til Kínverja um hjálp þegar kemur að fjármögnun björgunarsjóðs Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í viðtali við Trichet á vefsíðu BBC í tilefni af því að hann er að hætta störfum í dag.

Klaus Regling, framkvæmdastjóri björgunarsjóðsins, er nú staddur í Asíu að kynna sjóðinn fyrir stórþjóðum álfunnar með það fyrir augum að þær geti tekið þátt í því að kaupa skuldabréf sjóðsins þegar kemur að útgáfu þeirra.

Kínverjar hafa enn ekki samþykkt að taka þátt í fjármögnun sjóðsins samkvæmt fréttum Wall Street Journal. Þeir hafa vitnað til þess að nákvæmari útlistun á hlutverki sjóðsins þurfi að liggja fyrir áður en þeir taka ákvörðun um þátttöku í fjármögnuninni.

Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC standa vonir til þess að Kínverjar kaupi skuldabréf að sjóðnum fyrir um einn milljarð evra, sem nemur um tíu prósent af heildarstærð sjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×