Innlent

Allt annað en Teigsskóg, segir Ögmundur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur fallið frá því að láta Vestfjarðaveg liggja yfir hálsana tvö í Gufudalssveit og er tilbúinn að skoða alla aðra kosti nema þann að fara í gegnum Teigsskóg. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, segir að leiðin um Teigsskóg sé sú eina færa.

Svörin sem Vestfirðingar gáfu Ögmundi Jónassyni á Patreksfirði í haust, þegar hann boðaði að Vestfjarðavegur skyldi endurbyggður yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls en ekki lagður um Teigsskóg, gátu ekki orðið skýrari. Þeir mótmæltu með því að ganga út og berja búsáhöld.

Í dag var Ögmundur spurður á Alþingi hvað hann ætlaði að leggja til næst og kvaðst hann ætla að láta skoða allt, jarðgöng, fjarðaþveranir og sjávarfallavirkjun yst í Þorskafirði. Allir láglendiskostir skuli skoðaðir, nema sá að fara í gegnum Teigsskóg. ,,Ég tel að sú leið sé algerlega út úr kortinu," sagði Ögmundur.

Kristján L. Möller kvaðst í sinni ráðherratíð hafa átt marga samráðsfundi um málið með heimamönnum og sannfærst um að eina færa leiðin til að leggja láglendisveg um Gufudalssveit væri svokölluð B-leið, sem er um Teigsskóg.

Ögmundur svaraði Kristjáni með þeim orðum að kominn væri tími til að menn losuðu um þráhyggjuskrúfuna á sálartetrinu. ,,Við setjum hálendisleiðina til hliðar og líka Teigsskóg. Og við skoðum aðra kosti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×