Sport

Íshokkiþjálfari ætlaði að vaða í áhorfendur með kylfu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Allt ætlaði um koll að keyra þegar að rússneski hokkíþjálfarinn Andrei Nazarov reyndi að slá til áhorfenda á leik með kylfu. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir ofan.

Nazarov er þjálfari Vityaz Chekov en liðið var að keppa gegn Dinamo Minks frá Hvíta-Rússlandi í Kontinental-deildinni.

Stuðningsmenn Hvít-Rússanna höfðu látið ýmsum hlutum rigna yfir varamannabekkinn og endaði það með því að Nazarov missti algera stjórn á skapinu og byrjaði að slá í átt að áhorfendum með kylfunni.

Atvikið endaði með því að öryggisverðir blönduðu sér í málið og vísuðu brjáluðum stuðningsmönnum Dinamo Minsk út úr húsinu.

„Því miður gerðu nokkrir stuðningsmenn sem sátu við hliðinu á varamannaskýlinu sig seka um slæma hegðun. Þeir gerðu í því að æsa nokkra unga leikmenn upp allan leikinn,“ sagði Nazarov eftir leikinn.

„Svo rigndi smápeningi, kveikjurum, skrúfum og plastflöskum yfir okkur. Ég varð að taka málin í mínar hendur og reyna að koma þessum mönnum í burtu,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×