Tottenham varð að sætta sig við sitt fyrsta tap í Evrópudeildinni á tímabilinu þegar liðið lá 0-1 á útivelli á móti rússneska liðinu Rubin Kazan. Sigurmark Rússanna kom úr aukaspyrnu á 56. mínútu.
Tapið þýðir að Tottenham missti toppsætið í A-riðlinum til gríska liðsins PAOK sem vann auðveldan sigur á Shamrock Rovers í kvöld
Kevin Bond stjórnaði liði Tottenham í fjarveru Harry Redknapp en stjórinn fór í hjartaaðgerð í gær og heppnaðist hún vel. Bond gerði tvær breytingar á byrjunarliði Tottenham sem vann 3-1 sigur á Queens Park Rangers um síðustu helgi.
Carlo Cudicini stóð í marki Tottenham í leiknum og bjargaði margoft með glæsilegum markvörslum.
Cudicini kom þó ekki í veg fyrir að Bebras Natcho kom Rubin Kazan í 1-0 á 56. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu.
Hann sá hinsvegar til þess að Tottenham tapaði leiknum bara með einu marki.
