Fótbolti

Guardiola: Mourinho er líklega besti þjálfari heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Jose Mourinho.
Pep Guardiola og Jose Mourinho. Mynd/Nordic Photos/Getty
Pep Guardiola, þjálfari Evrópu- og Spánarmeistara Barcelona, var sigursæll leikmaður áður en hann gerðist þjálfari en hann er ekki sammála því að þjálfarar þurfi helst að hafa spilað leikinn sjálfir.

„Það er ekkert nauðsynlegt að hafa spilað fótbolta til að vera frábær þjálfari. Arrigo Sacchi breytti fótboltanum án þess að spila og Mourinho er trúlega besti þjálfari í heimi," sagði Pep Guardiola í viðtali á ESPN.

„Það getur hjálpað í sumum tilfellum að hafa spilað sjálfur en á móti kemur að það fylgja því líka kostir að hafa ekki spilað," sagði Guardiola en Barcelona hefur unnið 12 af 15 mögulegum titlum sínum að hann tók við liðinu árið 2008.

„Ég vissi hvenær minn tími var liðinn sem leikmaður og ég veit það að einn daginn verð ég orðinn þreyttur á því að þjálfa. Ég vona að sá dagur renni upp og ég hætti því venjulega lenda þjálfarar í því að vera reknir þegar þeir fara að tapa leikjum," sagði Guardiola.

„Í dag get ég valið um að halda áfram en ég geri mér grein fyrir því að það verður ekki alltaf svoleiðis. Ef ég fer að tapa leikjum þá verða þeir fljótir að sparka mér í burtu," sagði Guardiola sem gerir aldrei lengri samning en til eins árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×