Innlent

Ótrúlegt myndband af þjófum að ræna tölvuverslun

Það tók þrjá þjófa einungis tuttugu sekúndur að stela átta tölvuskjám úr verslun í Kópavogi í nótt. Eigandinn segir þetta tuttugustu ránstilraunina á tveimur árum og ránsfengurinn sé líklegast kominn í hendur kaupenda nú þegar.

Á öryggismyndavélum tölvuverslunarinnar Tölvuvirkni sjást þrír grímuklæddir karlmenn hlaupa upp að dyrum verslunarinnar rétt fyrir klukkan fimm í morgun, þeir voru allir með kúbein  og það tekur þá um mínútu að brjóta upp þriggja punkta læsingu á hurðinni.

Þá fer öryggiskerfið í gang, þjófarnir kasta frá sér kúbeinunum og herja beint á ránsfenginn en það er einungis ein vara, 24 tommu tölvuskjáir, reyndar ódýrasta gerð. Þeir hafa hraðar hendur og eru einungis tuttugu sekúndur að hrifsa til sín skjánna og hverfa á braut.

Öryggismiðstöðin og lögreglan koma stuttu seinna en þá eru þjófarnir á bak og burt.

„Þeir vissu nákvæmlega hvað þeir ætluðu að taka og það hefur sennilega verið búið að leggja inn pöntun fyrir þessu, svo þetta er seld vara og þeir eru að vinna hjá einhverjum," segir Björgvin Þór Hólm, eigandi Tölvuvirkni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að Björgvin er vakinn klukkan fimm um morgun vegna þjófnaðar.

„Ég er orðinn mjög reyndur í þessu, það er óöld í gangi, það er skorið niður til lögreglu og óska eftir meiri fjárframlögum þangað til að geta rekið fyrirtæki því þetta er í tuttugasta skipti sem reynt er að brjótast hérna inn í Tölvuvirkni frá því ég byrjaði rekstur og ég er með allar varnir sem hægt er að hugsast getur og þarf greinilega að bæta enn betur og setja upp einhvers konar virki hérna,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×