Formúla 1

Pastor Maldonado áfram hjá Williams

Pastor Maldonado keppir með Williams liðinu á næsta ári.
Pastor Maldonado keppir með Williams liðinu á næsta ári. MYND: LAT Photographic
Pastor Maldonado verður áfram ökumaður Williams Formúlu 1 liðsins á næsta ári og Valteri Bottas verður varaökumaður liðsins. Maldonado byrjaði að keppa með Williams á þessu ári við hlið Rubens Barrichello.

Williams staðfesti formlega í fréttatilkynnningu að Maldonado verður áfram ökumaður liðsins, en ekki var tilkynnt hver hinn keppnisökumaður liðsins verður á næsta keppnistímabili, en að Bottas mun gegna hlutverki varaökumanns.

Í frétt á autosport.com hefur verið greint frá því að Williams liðið hefði sýnt Adrian Sutil áhuga hvað næsta ár varðar, en að Barrichello vill keppa áfram ef möguleiki er á því. Williams ræddi við Kim Raikkönen um að keppa með liðinu, en hann ákvað að keppa með Lotus Renault á næsta ári og það var tilkynnt í vikunni.

„Ég er hæstánægður að geta keppt áfram með Williams annað árið í röð og mun gera mitt besta til að hjálpa liðinu í fremstu röð á ný. Þetta hefur verið erfitt ár fyrir allt liðið, en hefur fært mér tækifæri til að læra og þroskast", sagði Maldonado í fréttatilkynningu Williams.

„Ég er sannfærður um að skrefin sem við höfum tekið til að bæta samkeppnishæfni okkar munu skila árangri 2012 og lengur. Ég er uppveðraður að vera hluti af því og að vera fulltrúi fólksins í Venúsúela i Formúlu 1," sagði Maldonado sem er frá Venúsúela.

Frank Williams, yfirmaður Williams sagði að Maldonado hefði sannað á þessu keppnistímabili að hann væri ekki bara fljótur, heldur líka jafn og öflugur ökumaður í mótum. Williams sagði að Maldonado hefði staðið sig sérlega vel í mótínu í Mónakó.

Williams sagði að varökumaðurinn Bottas myndi taka þátt í föstudagsæfingum í fimmtán mótum á næsta ári og sagði að hann væri mjög hæfileikaríkur og einbeittur. Bottas varð meistari í GP3 mótaröðinni á þessu ári og vann fjögur af sjö síðustu mótum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×