Innlent

Biskup hvetur þjóðkirkjufólk til að þrýsta á þingmenn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Biskup gerir fjármál Kirkjunnar að umtalsefni í nýjum tölvupósti.
Biskup gerir fjármál Kirkjunnar að umtalsefni í nýjum tölvupósti.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hvetur þjóðkirkjufólk til þess að minna þingmenn á mikilvæg hagsmunamál þjóðkirkjusafnaða í tölvupósti sem hann sendi á póstlista Þjóðkirkjunnar í dag. Í póstinum bendir hann á að lokaumræða um fjárlögin verði á miðvikudaginn.

„Ég hef frétt að fjárlaganefndarmenn hafi fengið bréf frá þjóðkirkjufólki af öllu landinu um niðurskurð sóknargjalda og að það hafi haft áhrif, að æ fleiri þingmenn hafi nú áhyggjur af áhrifum niðurskurðarins á söfnuði og trúfélög landsins. Ég þakka þeim sem létu þannig í sér heyra við þingmennina og vil minna á, að það er aldrei brýnna en einmitt nú að fólk um allt land, sóknarnefndir sem og einstaklingar, minni þingmenn á þetta mikilvæga hagsmunamál þjóðkirkjusafnaða og allra trúfélaganna í landinu. Eftir miðja næstu viku verður það of seint!," segir Karl í tölvupóstinum.

Í póstinum vísar Karl til ályktunar Kirkjuþings 2011 þar sem vakin er athygli á því að sóknargjöld hafi lækkað um 20% frá árinu 2008 að teknu tilliti til úrsagna úr þjóðkirkjunni. Á sama tíma hafi greiðslur til stofnana innanríkisráðuneytisins hækkað vegna verðlagsbóta um 5%. Nú sé svo komið að ekki sé unnt að halda úti grunnstarfi í mörgum sóknum víðsvegar um landið, þar sem laun og annar rekstrarkostnaður auk fjármagnskostnaðar hafi hækkað verulega á þessu tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×