Kylfingurinn Rory MCIlroy hefur viðurkennt að hafa grátið eins og barn eftir að hann kastaði frá sér sigrinum á Masters-mótinu.
McIlroy hafði fjögurra högga forskot fyrir lokadaginn en fór algerlega á taugum. Hann kláraði hringinn á 80 höggum og endaði tíu höggum á eftir efsta manni.
Eftir mótið hringdi hann í foreldra sína í Norður-Írlandi og hann missti algjörlega stjórn á tilfinningum sínum í símanum.
"Þau sögðu eðlilega að þetta yrði allt í lagi en ég var því ósammála því ég hafði klúðrað hugsanlega eina tækifærinu sem ég fæ á að vinna þetta mót," sagði Rory.
"Mér leið betur eftir að hafa talað við mömmu og pabba og geri mér grein fyrir því í dag að ég mun fá annað tækifæri."
Rory lét þetta tap ekki á sig fá því aðeins 67 dögum síðar vann hann næsta risamót, US Open.

