Körfubolti

Brynjar og félagar töpuðu í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. Mynd/Anton
Brynjar Þór Björnsson og félagar í Jämtland Basket þurftu að sætta sig við 88-92 tap í framlengingu á móti Uppsala Basket í kvöld í mikilvægum leik á milli liðanna í áttunda og níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta. Þetta var fjórði heimaleikur Jämtland í röð sem tapast.

Brynjar Þór Björnsson var í byrjunarliði Jämtland og skoraði 16 stig á 33 mínútum en hann hitti úr 5 af 12 skotum sínum í leiknum.

Uppsala byrjaði betur, var skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum og leiddi 20-17 eftir hann. Jämtland vann annan leikhlutann 27-23 og var því einu stigi yfir í hálfleik, 44-43. Brynjar var með fimm stig í fyrri hálfleiknum.

Jämtland byrjaði seinni hálfleikinn á 14-3 spretti og komst tólf stigum yfir, 58-46. Brynjar skoraði fimm af þessum stigum. Uppsala kom til baka og var búið að minnka muninn niður í sjö stig, 64-57, fyrir lokaleikhlutann.

Uppsala vann hinsvegar fjórða leikhlutann 26-19 og tryggði sér framlengingu með þvi að jafna leikinn 17 sekúndum fyrir leikslok. Uppsala var síðan sterkari í framlengingunni og tryggði sér 92-88 sigur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×