Enski boltinn

Ferguson segir að FA hafi gert rétt í máli Suarez

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Patrice Evra og Luis Suarez eigast hér við.
Patrice Evra og Luis Suarez eigast hér við. Getty Images / Nordic Photos
Sir Alex Ferguson segir að enska knattspyrnusambandið, FA, hafi gert rétt með því að úrskurða Luis Suarez framherja Liverpool í átta leikja bann vegna kynþáttafordóma Suarez í garð Patrice Evra leikmanns Manchester United.

Forráðamenn Liverpool hafa gagnrýnt ákvörðun FA harðlega. Ferguson segir í viðtali við breska dagblaðið Guardian að félagið hafi stutt við bakið á Evra frá fyrstu mínútu og muni gera það áfram.

„Þessu máli er lokið og við erum sáttir við niðurstöðu FA. Þetta mál snérist ekki um Liverpool eða Manchester United. Alls ekki. Þetta mál snérist um kynþáttafordóma í garð eins leikmanns," sagði Ferguson en hann rifjaði einnig upp fjögurra leikja bann sem Evra fékk árið 2008 eftir samskipti hans við starfsmann Chelsea, Sam Bethell.

„Við vorum mjög undrandi á þeirri ákvörðun, það voru aðeins þrír aðilar sem voru til staðar þegar það atvik átti sér stað. Á þessum tíma var þetta virkilega hörð refsing en við gátum ekki breytt ákvörðun FA," segir Ferguson m.a. í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×