Fótbolti

Guardiola gaf Messi lengra jólafrí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Barcelona, ákvað að gefa Lionel Messi nokkra daga til viðbótar í jólafrí en síðarnefndi kappinn er nú farinn til Argentínu þar sem hann verður með fjölskyldu sinni yfir hátíðarnar.

Leikmenn Barcelona byrja að æfa aftur þann 29. desember næstkomandi en Messi þarf ekki að mæta aftur fyrr en þann 2. janúar.

Messi átti frábært ár með Barcelona og skoraði gríðarlegan fjölda marka með liðinu. Hann varð heimsmeistari félagsliða með Barcelona á dögunum og Spánarmeistari og Evrópumeistari í vor.

Brasilíumaðurinn Dani Alves fékk einnig nokkra daga til viðbótar í frí en hann þarf samt að mæta aftur á æfingu á gamlársdag.

Alves, Messi og Seydou Keita, sem er frá Malí, fengu allir frí frá leik Barcelona gegn L'Hospitaltet í spænsku bikarkeppninni í gærkvöldi. Það kom ekki að sök enda vann Barcelona leikinn með níu mörkum gegn engu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×