Viðskipti innlent

Sala á hlut í Landsvirkjun gæti fært þjóðinni skattlaust ár

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hægt væri að bjóða upp á skattalaust ár fyrir heimilin í landinu með með útgáfu nýs hlutafjár upp á 25 prósent í Landsvirkjun. Eða leiðréttingu á fjárlagahalla yfirstandandi árs, næsta árs og gott betur.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, hefur fært rök fyrir því að skynsamlegt sé að selja hlut í Landsvirkjun með útgáfu nýs hlutafjár, t.d til lífeyrissjóðanna, sem eru jú eign íslensku þjóðarinnar. Lífeyrissjóðirnir hafa áhuga, en fyrir 25 prósent af nýju hlutafé gætu fengist eitt hundrað milljarðar króna, að því gefnu að fyrirtækið sé 300 milljarða króna virði. Efnahags- og viðskiptaráðherra er opinn fyrir þessari hugmynd og hefur sagt að þetta verði að skoða af alvöru. Fjármálaráðherra er ekki jafn spenntur.

„Það var ákveðið og afgreitt hér í þessari ríkisstjórn í tengslum við mikla umfjöllun um orkumál fyrir ári síðan eða meira að við myndum ekki hrófla við opinberu eignarhaldi á stóru orkufyrirtækjunum," sagði Steingrímur J. Sigfússon í kvöldfréttum okkar í gær.

Kostirnir margir

Kostirnir sem Ásgeir Jónsson nefnir eru að með þessari leið blandaðs eignarhalds ríkis og lífeyrissjóða mætti aftengja ríkisábyrgð á lánum Landsvirkjunar. Fyrirtækið fengi sjálfstætt lánshæfismat. Fyrirtækið hefði jafnframt sterkara eiginfjárhlutfall og þyrfti ekki að reiða sig á skuldsetningu við fjármögnun nýrra virkjana, þetta sé afar jákvætt því eftir hrun sé sérstaklega mikilvægt að hafa sterkt eigið fé vegna lánsfjárþurrðar á mörkuðum. Þá segir Ásgeir aukinn slagkraft komast í fjárfestingar með miklu eigin fé, t.d eiginfjárhlutfalli upp á 40 prósent, og óvissuþættirnir séu færri.

Reiknað er með að í ár verði 42 milljarða króna halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári og 18 á því næsta, samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Þetta þýðir að fyrir 25 prósenta hlut í formi nýs hlutafjár í Landsvirkjun sem seldur yrði til lífeyrissjóðanna, sem eru í eigu almennings, mætti leiðrétta fjárlagahalla þessa árs og þess næsta og gott betur.

Jón Baldvin Hannibalsson, þáverandi fjármálaráðherra, bauð þjóðinni upp á skattlaust ár árið 1988. Samkvæmt fjárlögum næsta árs er tekjuskattur einstaklinga áætlaður 116 milljarðar króna. Það liggur því fyrir að miðað við verðmat sem liggur fyrir á 25 prósentum í nýju hlutafé í Landsvirkjun mætti bjóða íslensku þjóðinni og skuldsettum heimilum upp á skattleysi í eitt ár. Heilt ár, án tekjuskatts á einstaklinga. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×