Enski boltinn

Suarez fékk átta leikja bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Suarez og Patrice Evra í baráttu um boltann.
Luis Suarez og Patrice Evra í baráttu um boltann. Nordic Photos / Getty Images
Enska knattspyrnusambandið hefur dæmt Luis Suarez, leikmann Liverpool, í átta leikja bann fyrir að hafa verið með kynþáttaníð í garð Patrice Evra, leikmann Manchester United, í leik liðanna fyrr í vetur.

Suarez fékk þar að auki sekt upp á 40 þúsund pund eða um 7,7 milljónir króna. Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu enska knattspyrnusambandsins segir að Suarez hafi notað niðrandi orðalag um Evra og litarhaft hans.

Gefin verður út ítarlegur rökstuðningur á ákvörðun aganefndar enska knattspyrnusambandsins og frá þeim tíma hefur Suarez fjórtán daga til að áfrýja niðurstöðunni.

Suarez þarf ekki að taka út leikbannið fyrr en að áfrýjunarferlinu lýkur, eða þá þar til að fresturinn sem hann hefur til að áfrýja úrskurðinum rennur út.

Því hefur verið haldið fram að Suarez hafi kallað Evra „negrito" sem telst vinalegt orðalag meðal spænskumælandi Suður-Ameríkumanna. Sjálfur er Suarez frá Úrúgvæ en Evra er franskur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×