Innlent

Að mörgu að huga fyrir Reykjavíkurmaraþonið

Reikna má með fjölmenni á laugardag í Lækjargötunni þar sem hlaupið verður ræst.fréttablaðið/daníel
Reikna má með fjölmenni á laugardag í Lækjargötunni þar sem hlaupið verður ræst.fréttablaðið/daníel
Reykjavíkurmaraþonið fer fram í 28. skipti á morgun en í gær höfðu 9.788 manns skráð sig til þátttöku, 29 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra.

Tíu kílómetra hlaupið er sem fyrr vinsælast og forskráðu rétt tæplega fjögur þúsund manns sig til þátttöku. Þá höfðu 692 skráð sig í heilt maraþon.

Róbert Magnússon, sérfræðingur í íþróttasjúkraþjálfun hjá Atlas endurhæfingu, ræður fólki frá því að skrá sig á síðustu stundu í hlaup sem það ráði ekki við.

„Mörg þau vandamál sem hlauparar glíma við og geta komið upp eru ofálagseinkenni í kringum hné, hásinar og ökkla sem rekja má til þess að æfingaálagið hafi verið of mikið á skömmum tíma fyrir hlaup eða þá að undirbúningurinn hafi ekki verið nægilega langur,“ segir Róbert.

Róbert mælir með því að þátttakendur hlaupi „taktískt“ og passi sig á því að sprengja sig ekki í byrjun hlaups. Þá varar hann langhlaupara við því að byrja of fljótt að hlaupa aftur eftir Reykjavíkurmaraþonið.

„Eftir hlaup er mikilvægt að hafa í huga að það tekur líkamann langan tíma að jafna sig eftir maraþon, allt upp í þrjár vikur. Bæði maraþon og hálfmaraþon er rosaleg áreynsla. Það er því varhugavert að fara of snemma af stað aftur,“ segir Róbert.

Loks minnir Róbert á mikilvægi góðs skóbúnaðar en varar þó við því að kaupa nýja skó fyrir hlaupið. Þá sé mikilvægt að drekka nóg af vatni og skynsamlegt að borða saðsama kolvetnismáltíð tveimur til þremur tímum fyrir hlaup.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×