Innlent

Kallar eftir hugarfarsbreytingu þingmanna

Áhyggjur af umræðuhefð Forseti Alþingis segir að hugarfarsbreytingu þurfi til að bæta stjórmálaumræðuna hér á landi.Fréttablaðið/Vilhelm
Áhyggjur af umræðuhefð Forseti Alþingis segir að hugarfarsbreytingu þurfi til að bæta stjórmálaumræðuna hér á landi.Fréttablaðið/Vilhelm
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur áhyggjur af yfirbragði stjórnmálaumræðunnar í landinu og segir þörf á hugarfarsbreytingu.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segist hún telja „orðbragð sem heyrst hefur m.a. frá alþingismönnum, [...] til þess fallið að rýra álit og trúverðugleika þingsins“.

Stjórnmálamenn hafi að hennar mati ekki dregið nægilegan lærdóm af þeirri gagnrýni sem rannsóknarnefnd Alþingis setti fram í skýrslu sinni um umræðuhefðina í íslenskum stjórnmálum.

Í síðustu viku stigu fjórir þingmenn upp í pontu og lýstu yfir áhyggjum sínum af þróun stjórnmálaumræðunnar, í ljósi nýlegra ummæla þingmanna um starfsbræður sína. Meðal annars hvatti Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, forseta til að grípa til aðgerða „til að stjórnmálaumræðan, bæði á Alþingi og fyrir utan þingið, komist á örlítið hærra plan“.

Ásta Ragnheiður segist hafa rætt þessi mál nýlega við formenn þingflokkanna og heitið því að taka á þessu máli. Hún bætti þó við: „Þessum ósið verður ekki breytt með reglum, það þarf hugarfarsbreytingu. Siðvæðingu umræðuhefðarinnar.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×