Erlent

Brown varar Skota við íslenskum örlögum

Gordon Brown fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, varar Skota við því að það geti farið fyrir þeim eins og Íslendingum og Írum í bankahruninu, kjósi þeir yfir sig stjórn Skoska þjóðernisflokksins í komandi kosningum til skoska þingsins.

Flokkurinn hefur sótt mjög á í könnunum á kostnað skoska Verkamannaflokksins. Brown, sem sjálfur er Skoti, segir að endurkjör skoskra þjóðernissinna muni leiða til fækkunar starfa.

Skoskir þjóðernissinnar segja ummæli Brown vandræðaleg. Það hafi verið Brown sem leiddi Breta inn í efnahagskreppuna. Hann sagði að héraðsstjórnin í Skotlandi undir stjórn Skoska þjóðernisflokksins hefðu viljað fara sömu leið og Ísland og Írland, en það hafi verið bresk stjórnvöld sem björguðu bönkunum og þar með störfum í Skotlandi sem ella hefðu glatast.

Leiðtogar skoskra þjóðernissinna segja afskipti Brown af kosningabaráttunni hafa truflandi áhrif eins og fyrir kosningar 2007, sem alls ekki hafi orðið Verkamannaflokknum til framdráttar þá frekar en nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×