Erlent

Fullyrða að upplýsingar um glæpaforingja hafi komið frá Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bulger var einn af tíu mest eftirlýstu mönnum Bandaríkjanna. Mynd/ afp.
Bulger var einn af tíu mest eftirlýstu mönnum Bandaríkjanna. Mynd/ afp.

Það var kona, búsett á Íslandi, sem veitti Alríkislögreglunni í Bandaríkjunum, FBI, upplýsingar sem leiddu til þess að James "Whitey" Bulger var handtekinn á miðvikudag. Þetta fullyrðir fréttastofa í Boston í Bandaríkjunum. Fréttastofan segist hafa þetta eftir heimildum úr lögreglunni.

James Bulger er grunaður um að hafa stjórnað illræmdri glæpaklíku og bera ábyrgð á nítján morðum. Bulger er á níræðisaldri. Hann hefur verið á flótta undan lögreglunni í sextán ár. Hann var handtekinn í Santa Monica í Kalíforníu. Hann hafði verið á lista yfir mest eftirlýstu glæpamenn Bandaríkjanna í um árabil.

Ekki liggur fyrir hvernig konan, sem sögð er búsett á Íslandi hafði upplýsingar sem gátu varpað ljósi á málið. Hins vegar liggur fyrir að hún lét vita eftir að hún sá að lýst var eftir Catherine Greig, sambýliskonu Bulgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×