Innlent

„Gósenland fyrir tilraunarstarfsemi og nýja flokka"

Nær fimmtungur kjósenda myndi skila auðu eða sleppa því að fara á kjörstað færu kosningar fram til alþingis í dag og fjórtán prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp. „Gósenland fyrir tilraunarstarfsemi og nýja flokka," segir stjórnmálafræðingur.

Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem fréttastofa Ríkisútvarpsins birti í gærkvöldi.

Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri segir þetta sýna að enn sé mikil óvissa í stjórnmálunum og flokkarnir séu enn að glíma við það vantraust sem hefur verið ríkjandi. Einnig kemur fram í þjóðarpúlsinum að rúm fimm prósent svarenda myndu kjósa aðra flokka.

„Ég held að það hafi legið fyrir í allan vetur, þetta er staðan í stjórnmálum, það er gósenland fyrir tilraunarstarfsemi og nýja flokka. Við heyrðum um áramótin að Besti flokkurinn væri tilbúinn að fara fram á landsvísu, það eru margir flokkar í burðarliðunum. Ef þetta heldur áfram svona eru töluverðar líkur á nýjum framboðum."

Samkvæmt þjóðarpúlsinum nýtur Ríkisstjórnin stuðnings 37% landsmanna sem er örlítið meira en mældist í nóvember. Birgir segir að það sé slæmt fyrir ríkisstjórnina að hafa ekki meiri stuðning en það sé einnig áhyggjuefni fyrir stjórnarandstöðuna að vera ekki að græða þegar stuðningurinn er ekki meiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×