Innlent

Mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu ráðherra

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í dag að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefði brotið lög þegar hún neitaði að staðfesta aðalskipulag vegna Urriðafossvirkjunar. Mikill áfellisdómur yfir stjórnsýslu ráðherrans, segir lögmaður Flóahrepps.

Synjun ráðherra fyrir rúmu ári að staðfesta skipulag tveggja hreppa, Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, stöðvaði í raun þrjár virkjanir í neðri Þjórsá, kenndar við Urriðafoss, Holt og Hvamm, en þær voru fullhannaðar og tilbúnar til útboðs. Svandís Svavarsdóttir hafnaði skipulaginu á þeirri forsendu að Landsvirkjun hefði greitt kostnað viðkomandi sveitarfélaga vegna skipulagsvinnu.

Ráðamenn Flóahrepps sættu sig ekki við ákvörðun ráðherrans, hvað varðar Urriðafossvirkjun, töldu þetta pólitískan gerning en ekki faglegan. Flóamenn höfðu sigur í Héraðsdómi í haust og nú hefur Hæstiréttur staðfest þann dóm. Fimm dómarar Hæstaréttar voru einhuga um niðurstöðuna.

Óskar Sigurðsson, lögmaður Flóahrepps, segir dóm Hæstaréttar vera mikinn áfellisdóm yfir stjórnsýslu ráðherra; að ráðherra hafi brotið gegn fyrirmælum laga við ákvörðun sína og ekki farið eftir því sem lagaatextinn segir.

Þá komi fram í dómnum að sveitarstjórn hafi að öllu leyti, efnislega, málefnalega og löglega, staðið rétt að sínum ákvörðunum, að sögn Óskars.

„Það er þvert gegn því sem ráðherra hefur haldið fram, - og sveitarstjórnarmenn þurft að sitja undir áburði um það að hafa ekki staðið faglega að málum. Þessu er einfaldlega hnekkt, bæði í héraði og Hæstarétti," segir lögmaðurinn.

Synjun Svandísar í fyrra hafði þær afleiðingar, að sögn forstjóra Landsvirkjunar, að fyrirtækið ákvað að fresta öllum viðræðum við fjölda erlenda fyrirtækja sem óskað höfðu eftir orkukaupum, og sagði Hörður Arnarson þá að ákvörðun ráðherrans myndi tefja atvinnuuppbyggingu, sem nýtt hefði orku þessara virkjana, um eitt til tvö ár.

„Ég geri ráð fyrir því að ráðherra staðfesti þetta skipulag á næstu dögum," segir lögmaður Flóahrepps.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×