Erlent

Bandarískir njósnarar í Svíþjóð

Óli Tynes skrifar
Svenska Dagbladet heldur því fram að Bandaríkjamenn hafi njósnað um grunaða hryðjuverkamenn í Svíþjóð, rétt eins og gert var áður en ráðist var til atlögu við Ósama bin Laden í Pakistan. Blaðið segir að sænska öryggislögreglan hafi árið 2009 orðið vör við ferðir tveggja bandaríkjamanna sem voru að fylgjast með mönnum sem sænska lögreglan hafði sjálf undir eftirliti. Svenska Dagbladet segir að Bandaríkjamennirnir hafi verið í landinu án vitneskju sænskra yfirvalda.

 

Sænska öryggislögreglan Säpo hafði að sögn blaðsins samband við fulltrúa bandarískju leyniþjónustunnar í Svíþjóð. Mennirnir tveir hurfu þá úr landi. Säpo Svaraði spurningum sænska dagblaðsins með því að þar á bæ væri aldrei rætt opinberlega um njósnamál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×