Erlent

Valdabarátta í Kreml

Óli Tynes skrifar
Þú ferð þessa leið út......Putin og Medvedev.
Þú ferð þessa leið út......Putin og Medvedev.
Vladimir Putin vill verða forseti Rússlands á nýjan leik og valdabarátta milli hans og Dmitrys Medvedev núverandi forseta er þegar hafin. Breska blaðið Sunday Times hefur þetta eftir háttsettum heimildarmönnum í Moskvu. Samkvæmt rússneskum lögum má forseti ekki sitja samfellt í embætti lengur en tvö kjörtímabil.

 

Eftir að hafa setið tvö kjörtímabil árið 2008 fól því Putin forsetaembættið í hendur Medvedevs með því fororði (óopinberlega þó) að hann tæki aftur við því eftir eitt kjörtímabil. Sjálfur tók Putin við embætti forsætisráðherra á meðan. Nú eru hinsvegar teikn á lofti um að Medvedev kunni ágætlega við sig sem forseti Rússlands og sé ekkert áfjáður í að Putin snúi aftur í kosningunum á næsta ári.

 

Nú er líka búið að breyta lögum þannig að kjörtímabilið er sex ár en ekki fjögur. Putin gæti því setið í embætti forseta til ársins 2024. Þá væri hann orðinn 72 ára og búinn að sitja sem forseti og forsætisráðherra í samtals 24 ár. Í síðustu viku sagði Medvedev; -Maður sem heldur að hann geti setið endalaust að völdum er hættulegur þjóðfélaginu. Litið var á þetta sem dulbúna árás á Putin, sem sé farinn að efast um hollustu Medvedevs.

 

Heimildarmenn Sunday Times segja þó að ef Putin hvessi sig muni Medvedev stíga til hliðar, hversu treglega sem það verður. Og þeir segja að ef með þurfi muni Putin hvessa sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×