Innlent

Gnarr: Betra að hlúa að erlendum gestum en að skjóta þá

Borgarastjórinn í Reykjavík vill frekar hlúa að erlendum gestum sem hingað koma en að skjóta þá. Á næstu dögum fer í gang alþjóðleg söfnun fyrir nokkurskonar endurhæfingarbúðum fyrir Ísbirni, en ætlunin er að koma þeim upp í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík fundaði með forsvarsmönnum Fjölskyldu- og húsdýragarðsins um miðjan dag í gær þar sem hann kynnti áform sín í hinu víðfræga ísbjarnarmáli, sem var eitt af kosningaloforðum Besta flokksins í sveitastjórnarkosningunum í vor.

S. Björn Blöndal aðstoðarmaður Jóns sagði í samtali við fréttastofu í gær að fundurinn hefði gegnið ágætlega. Aðallega hefðu menn verið að fara yfir stöðu garðsins en Ísbjarnarmálin báru einnig á góma.

Aðspurður um áform Besta flokksins í því máli sagði Björn að ætlunin væri að setja af stað alþjóðlega söfnun á netinu, þar sem fé yrði safnað til þess að koma upp nokkurskonar endurhæfingarbúðum fyrir ísbirni sem að einhverjum ástæðum villast hingað til lands. Hann reiknaði með að hugmyndin fengi góðaN hljómgrunn enda allir sammála um að betra sé að taka vel á móti þessum loðnu dýrum með hlýju og hjálpsemi, en að skjóta þau.

Björn sagði hugmyndina enn í þróun, en með henni væri ætlunin að hjálpa dýrunum sem oftar en ekki eru nokkuð veikburða eftir langt ferðalag hingað til lands. Þau fengju þá tækifæri til þess að ná upp fyrra þreki áður en þau væru send aftur á heimaslóðir. Í einhverjum tilfellum myndu sérfræðingar hinsvegar meta það sem svo að dýrin ættu sér ekki viðreisnar von í villtri náttúrunni, og þá gætu þau dvalið hér á landi í lengri tíma.

Stefnt er á að söfnunin fari í gang, á næstu vikum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×