Innlent

Læknum fækkaði um 10%

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Íslenskum læknum hefur fækkað um 10%.
Íslenskum læknum hefur fækkað um 10%.
Læknum á íslenskum heilbrigðisstofnunum hefur fækkað um meira en 10 prósent síðan þeir voru hvað flestir árið 2008 og þar til nú.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en þar er birt yfirlit yfir stöðugildi og vinnuframlag bæði lækna og hjúkrunarfræðinga á íslenskum heilbrigðisstofnunum frá árinu 2007.

Samkvæmt því voru að meðaltali 815 læknar að störfum árið 2007, þeim fjölgaði nokkuð árið eftir og voru flestir á þriðja ársfjórðungi 2008 þegar 865 læknastöðugildi voru á heilbrigðisstofnunum. Undanfarin tvö ár hefur þeim hins vegar farið fækkandi, en á fyrsta fjórðungi þessa árs voru þeir orðnir 772 talsins; fækkun upp á rúm ellefu prósent síðan mest var. Vinnuframlag læknanna hefur svo dregist enn meira saman.

Hjúkrunarfræðingum fjölgaði hins vegar að meðaltali á árunum 2007 til 2010, en um 1590 stöðugildi hjúkrunarfræðinga voru á heilbrigðisstofnunum í upphafi árs. Lítillar sveiflu gætir í fjölda þeirra frá árinu 2007, þó það gildi hið sama um þá og læknana að vinnuframlagið hefur dregist nokkuð saman, eða um 6 prósent að meðaltali á þessu fjögurra ára tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×