Innlent

Rafbækur og nettónlist í lægra þrep

helgi hjörvar
helgi hjörvar
Efnahags- og skattanefnd afgreiddi í gær frumvarp um að lækka virðisaukaskatt á rafbækur og tónlist á netinu. Þessir vöruflokkar eru nú í hærra skattþrepi og bera 25,5 prósenta skatt, en munu bera 7 prósenta skatt verði breytingin að veruleika.

Allar líkur eru á því að svo verði, þar sem frumvarpið var afgreitt samhljóða úr nefndinni af fulltrúum allra flokka.

Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, segir að nefndin vilji að tónlist og rafbækur á netinu beri sama skatt og tónlist og bækur í áþreifanlegu formi.

„Fyrir utan jafnræðissjónarmiðin og það að skapa skapandi greinum jákvæðara umhverfi þá er þetta líka hugsað sem liður í því að hraða rafbókavæðingunni hérna, ekki síst í kennslubókum,“ segir Helgi.

Hann segir breytinguna líka hugsaða til þess að mæta því að mikið af tekjum á þessu sviði hafi ekki skilað sér. Erlendir aðilar hafi ekki staðið skil á skatti og tekjur hafi tapast með því að hafa þetta í hærra þrepi.

„Inni í þessu er ákvæði um að erlendir aðilar sem selja hér skrái sig hér á landi og skili virðisaukaskatti af þeirri sölu sem er hér á Íslandi. Þetta mun skila tekjum, en ekki leiða til verðhækkunar þar sem fyrirtækin skila nú þegar vaski, en heima fyrir.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×