Viðskipti innlent

Mikilvægt að bankar gæti aðhalds

Elín Jónsdóttir
Elín Jónsdóttir
Forstjóri Bankasýslu ríkisins segist ekki vita hvort fulltrúar hennar í stjórn Arion banka og Íslandsbanka hafi lagt blessun sína yfir launahækkanir stjórnenda á síðasta ári.

Í eigendastefnu ríkisins, sem finna má á vef Bankasýslunnar, er ákvæði um að launagreiðslur í fjármálafyrirtækjum sem ríkið á hlut í skuli vera samkeppnishæf en ekki leiðandi á markaðnum.

Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslunnar, áréttar að laun séu ákvörðuð af stjórnum og að Bankasýslan hafi ekki bein afskipti af ákvörðunum þeirra.

Laun bankastjóra Arion banka hækkuðu um rúm 40 prósent á síðasta ári og þiggur Höskuldur H. Ólafsson nú um fimm milljónir á mánuði. Á sama tíma jókst kostnaður við launagreiðslur til yfirstjórnenda bankans um 37 prósent. Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, hækkuðu um tæpan þriðjung, eins og Stöð 2 greindi frá um helgina.

Spurð hvort hún telji þessar launahækkanir réttlætanlegar segist Elín ekki vilja taka afstöðu til þess. „En við höfum lagt áherslu á það í samtölum okkar við stjórnir fjármálafyrirtækja að það er mjög mikilvægt að gæta að innri hagræðingu í fjármálafyrirtækjunum og kostnaðaraðhald hlýtur að vera lykilatriði í rekstri fjármálafyrirtækja á Íslandi í dag." - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×