Innlent

Ólga meðal félagsmanna VR vegna nýs formanns

Erla Hlynsdóttir skrifar
Félagsmenn í VR hafa í auknum mæli í dag haft samband við Bandalag háskólamanna, BHM, til að kanna hver staða þeirra er ef þeir skiptia um stéttarfélag.

Nýr formaður VR, Stefán Einar Stefánsson, var kjörinn í dag og eru félagsmenn misjafnlega sáttir við að hann taki við félaginu. Mikil umræða hefur skapast á Fésbókarsíðum um kjörið og fjöldi fólks segist ætla að segja sig úr VR vegna nýs formanns.

Stefán Einar þykir umdeildur vegna þátttöku hans í starfi ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins.

„Það hefur verið svolítið hringt og spurt um rétt í félögunum. Ekkert ofboðslega mikið en samt meira en venjulega," segir Halldór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Huggarðs þjónustuskrifstofu sem sér um fimm af BHM-félögunum. „Það hefur komið þó nokkuð af fyrirspurnum frá félagsmönnum VR," segir hann aðspurður.

Almennt er ekki mikið mál fyrir fólk að skipta um stéttarfélag á almennum markaði enda ræður fólk sjálft í hvaða stéttarfélagi það er, svo lengi sem það uppfyllir kröfur félagsins, til að mynda um menntun.

Stefán Einar fékk um 20% atkvæða í formannskjörinu. Sú sem næst flest atkvæði fékk hlaut um 18% atkvæða.

Kosningaþátttaka var mjög dræm, en tæplega fimm þúsund manns greiddu atkvæði, eða um 17 prósent félagsmanna í VR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×