Ljósin voru slökkt í dómssalnum og myndband af innrás níumenninganna inn í alþingi sýnt. Heyra mátti hlátur og fliss hjá áhorfendum og sakborningum sem horfðu á atburðinn örlagaríka. Vitnið Jón Benedikt Hólm sagðist hafa ætlað að gleðja þingmenn umræddan dag.
„Ég flaug á vængjum ástarinnar," sagði Jón, spurður um hvernig hann hefði komist upp á þingpallana og uppskar hlátur í salnum. (09:35)
Næsta vitni, Kolbeinn Aðalsteinsson (09:40), segir aðgerðina ekki hafa verið skipulagða. Engu að síður hafi verið „einhver hugmynd um að fara inn í Alþingishúsið" áður en þau hafi látið til skarar skríða. „Við gerðum okkur grein fyrir því að það yrði röskun á störfum þingsins," segir hann.
Kolbeinn er spurður af hverju hann hafi „ruðst" upp tröppurnar. Verjendur gera athugasemd við orðalagið (09:50) og ákæruvaldið umorðar spurninguna: „Af hverju "fórstu" upp tröppurnar."
„Lögreglan handjárnaði mig, lét mig liggja á maganum og setti hnéið í bakið á mér," segir Kolbeinn. Hann segist ekki hafa vitað af hverju hann var handtekinn og kvartar undan þeirri meðhöndlun sem hann fékk af hálfu lögreglunnar.