Innlent

Ætla að flýta vegaframkvæmdum og skapa ný störf

Ríkisstjórnin ætlar að flýta vegaframkvæmdum til að skapa ný störf og er markmiðið að ná atvinnuleysinu niður í fimm prósent. Þá á að auka opinberar framkvæmdir um fimmtíu prósent, en það er meðal tillagna til að höggva á hnút kjaraviðræðna. Engar beinar lækkanir verða á tekjuskatti fyrirtækja eða einstaklinga.

Forystumenn aðila vinnumarkaðarins funduðu með ríkisstjórninni í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu klukkan eitt í dag en á fundinum tilkynnti ríkisstjórnin tillögur sínar til þess að höggva á hnútinn í kjaraviðræðum.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍU, var meðal þeirra sem sátu fundinn. Spurð um veru framkvæmdastjórans svaraði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra:

„Þeir voru ekkert sérstaklega boðaðir hingað, þannig það kemur mér á óvart að þeir séu hér."

Forsætisráðherra sagði eftir fundinn að aðilar hefðu færst nær samkomulagi og sagðist vongóð. En hvaða verkefni ætlar ríkisstjórnin að ráðast í til að skapa störf?

„Við getum ekki farið út í einstök atriði í þessu. Það er hugsanlega 50 prósent aukning á opinberum framkvæmdum og það skiptir verulegu máli," sagði Jóhanna.

Um er að ræða ýmsar vegaframkvæmdir eins og vegaúrbætur á Vesturlands- og Suðurlandsvegi og fleira.

Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir skattalækkun fyrir fyrirtæki sem eðlilega myndi veita vinnuveitendum svigrúm til launahækkana. En er það á dagskrá?

„Við erum að vinna með þeim, bæði Samtökum atvinnulífsins og verslunarráði varðandi tæknileg atriði og það er listi upp á fimm sex ariði sem við viljum leiða til lykta með þeim," sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Listinn er vinnuskjal sem ekki hefur verið gert opinbert en eftir því sem fréttastofa kemst næst er ekki um beinar lækkanir á tekjuskatti að ræða, en rætt hefur verið um lækkun tryggingagjalds á fyrirtæki.

Að sögn fjármálaráðherra var aðkoma Landsvirkjunar að Helguvík ekki rædd á fundinum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×