Innlent

Friðarsinnar köstuðu skóm - skíðaskór voru bannaðir

Friðarsinnar fjölmenntu við Öskju, náttúrufræðihús Háskóla Íslands, í dag og köstuðu skóm til að lýsa yfir andúð sinni á varaframkvæmdastjóra Nató, Claudio Bisogniero, sem hélt þar erindi í hádeginu.

Samtök hernaðarandstæðina leituðu þarna í hugmyndasmiðju blaðamannsins Muntazer al-Zaidi frá Írak sem vakti athygli fyrir nokkrum misserum þegar hann sýndi andúð sína á hernámi Bandaríkjamanna með því að kasta skóm sínum í átt að George W. Bush forseta.

„SHA vilja þó árétta að samtökin eru ekki hlynnt því að skóm sé kastað í fólk og dýr. Þess vegna verður komið upp sérstökum skókastbökkum fyrir utan Öskju. Brúklegir kastskór verða á staðnum, þótt gestum sé vitaskuld heimilt að koma með sína eigin skó. (Skíðaskór, tréklossar og skór með stáltá bannaðir.)," sagði í hvatningu samtakanna fyrir mótmælin.

Að mati Samtaka hernaðarandstæðinga er Nató „árásargjarnt hernaðarbandalag sem hefur þann tilgang að tryggja hagsmuni nokkurra af ríkustu og voldugustu þjóðum heims og ber ábyrgð á miklum hörmungum víða um lönd."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×