Innlent

Borgarlandið óvenjulega loðið

Margir hafa tekið eftir því að sjaldnar er slegið í borgarlandinu nú en áður. Víða er að sjá sem kargaþýfi sé á túnum.
Margir hafa tekið eftir því að sjaldnar er slegið í borgarlandinu nú en áður. Víða er að sjá sem kargaþýfi sé á túnum. Mynd/Anton Brink
Ófáir hafa orðið varir við samdrátt í slætti í landi Reykjavíkurborgar, en niðurskurðarhnífurinn hefur borið niður þar eins og víða annars staðar í kreppunni. Umferðareyjar og spildur víða í borginni þykja heldur loðnar, enda er slegið sjaldnar núna en fyrir hrun.

Guðrún Hilmisdóttir hjá framkvæmda- og eignasviði borgarinnar segir viðmiðið að slá allt borgarlandið þrisvar sinnum í sumar. Á því séu þó undantekningar, en reynt sé að halda sig við það mark.

Óhægt er um vik með samanburð frá því fyrir hrun, en þá var slegið mismunandi oft á svæðum eftir þörfum. Við stofnbrautir og fjölfarin svæði var slegið fimm sinnum að sumri, en nú aðeins þrisvar, líkt og áður segir.

Vegagerðin hefur umsjón með þjóðvegum í þéttbýli. Hún sagði upp viðhaldssamningum við sveitarfélögin í vor og sér því um grasslátt meðfram þeim núna. Til þeirra heyra Kringlumýrarbraut, Miklabraut og Sæbraut, svo dæmi séu tekin. Sláttur þar fer þó í sameiginlegt útboð með öðrum svæðum í borginni.

Guðrún segir ekkert launungarmál að samdráttur hafi orðið í slættinum. „Það er slegið minna en áður, farnar færri umferðir. Það hefur verið árlegur niðurskurður í slættinum frá hruninu og þetta eru viðbrögð við þeim niðurskurðarkröfum sem á okkur voru settar.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×