Innlent

Vill efla kynferðisbrotadeildina

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vill efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og gera hana ráðgefandi fyrir önnur embætti á landinu. Deildin muni ekki taka yfir rannsóknir heldur verða öðrum embættum til halds og trausts.

Víðtækt samráð fjölmargra hagsmunaaðila fór af stað í haust um hvaða leiðir mætti fara til að laga brotalamir í meðferð kynferðisbrotamála. Ögmundur segir að þessi tillaga sé ein þeirra sem fæðst hafi í því samráði. Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, hefur talað fyrir því að kynferðisbrotadeildin á höfuðborgarsvæðinu verði efld.

„Lögreglan víðs vegar um land hefur staðið sig mjög vel í rannsókn slíkra mála, um það eru mörg dæmi. Það eru hins vegar veikleikar í þessu kerfi, á því leikur enginn vafi,“ segir Ögmundur. Hann nefnir því til sönnunar að deildir séu víða fámennar og eins geti nálægðin við málsaðila verið erfið.

Ögmundur sér þetta fyrir sér sem lið í lengra ferli sem hæfist á forgangsröðun innan lögreglunnar. „Það er hins vegar ekki nóg að breyta skipulagi ef ekki fylgir fjármagn með. Deildin er fámenn og henni er þröngur stakkur skorinn fjárhagslega. Það er nokkuð sem við verðum að laga.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×