Innlent

Fæðuval þorsksins tekur breytingum

Loðna er langmikilvægasta fæða þorsks en þar á eftir koma rækja og ljósáta.
Loðna er langmikilvægasta fæða þorsks en þar á eftir koma rækja og ljósáta. Mynd/Stefán Karlsson
Töluverðar breytingar hafa orðið á fæðu þorsks á Íslandsmiðum á síðasta aldarfjórðungi. Minnkandi stofnar loðnu og rækju undanfarin tíu til fimmtán ár hafa valdið því að meðalþyngd þorsks hefur dregist saman síðustu tíu ár. Þetta eru niðurstöður rannsókna Ólafs K. Pálssonar og Höskuldar Björnssonar, sérfræðinga hjá Hafrannsóknastofnun.

Ólafur og Höskuldur birtu nýverið grein í vefútgáfu tímarits Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES Journal of Marine Science). Í greininni er fæðuvali þorsks lýst og gerð grein fyrir langtímabreytingum í áti hans frá 1981 til 2010.

Hafrannsóknastofnun hefur rannsakað fæðu þorsks á Íslandsmiðum undanfarna þrjá áratugi. Þessar rannsóknir hafa einkum farið fram í mars, í árlegu togararalli frá árinu 1985, en einnig að haustlagi í haustralli frá 1996.

Meginfæða þorsks öll árin sem rannsóknin nær til var loðna, rækja og ljósáta. Af þessum þremur fæðustofnun er loðnan þó langmikilvægust, eins og fyrri rannsóknir hafa ítrekað sýnt.

Verulegar breytingar hafa orðið á áti þorsks á tímabilinu, ekki síst í áti á loðnu og rækju en át á þeim hefur minnkað nokkuð á síðustu fimmtán árum. Rannsóknin sýnir að þorsknum tekst ekki að bæta að fullu minna át á loðnu þegar loðnustofninn er lítill með áti á annarri bráð. Minni loðnustofn er því sennilega ein helsta skýring þess að meðalþyngd þorsks hefur lækkað undanfarin tíu ár.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×