Íslenski boltinn

Derek Young: Það tala allir Glasgow-sku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég er þreyttur. Þetta var erfiður leikur en fín úrslit," sagði sagði Derek Young nýjast Skotinn í Grindavíkurliðinu að loknu 1-1 jafnteflinu gegn Val á Hlíðarenda í kvöld.

„Fyrri hálfleikur okkar var betri sóknarlega séð. Í síðari hálfleik sýndum við góðan varnarleik en hefðum getað verið sterkari fram á við. En þetta er gott stig fyrir okkur," sagði Young.

Young sem spilaði á miðjunni hjá Grindvíkingnum fannst Valsmenn spila góðan fótbolta og var sáttur við stigið.

„Þetta var þreytandi enda hef ég ekki spilað leik í tvo og hálfan mánuð síðan skosku deildinni lauk. Þeir voru gott lið sem spiluðu boltanum vel og sóttu mikið. Þannig að þetta var erfitt. En þetta voru fínar 90 mínútur fyrir mig."

Young var beðinn um að bera knattspyrnuna á Hlíðarenda í kvöld saman við skoska boltann.

„Menn reyna að gera hlutina hraðar hér. Í Skotlandi gefa menn sér meiri tíma í að byggja upp sóknir. En hraðinn er svipaður. Allir vilja fá boltann, spila honum og berjast."

Young er einn fimm skoskra leikmanna í herbúðum Grindavíkur. Auk Young voru Jamie McCunnie, Scott Ramsey og Robbie Winters í byrjunarliðinu. Paul McShane sat á bekknum.

„Það eru líka allir frá Glasgow. En þetta er frekar fyndið því strákarnir tala ekki skosku í klefanum. Það tala allir Glasgow-sku meira að segja íslensku strákarnir. Það hefur verið tekið vel á móti mér og auðvelt fyrir mig að falla inn í hlutina."

Vafalítið eru félög í skosku deildinni sem stilla ekki upp fjórum til fimm heimamönnum í byrjunarliðum sínum.

„Það hafa komið margir útlendingar í skosku deildina á undanförnum árum. Það gæti verið ástæðan fyrir því að skoska landsliðinu gengur svo illa. En þannig er fótboltinn," sagði Young.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×