Innlent

Forsetinn í freyðivíns-fjölmiðlabaði

Atla Gíslasyni fannst forsetinn barnslega glaður á blaðamannafundinum sem hann hélt á Bessastöðum í gær
Atla Gíslasyni fannst forsetinn barnslega glaður á blaðamannafundinum sem hann hélt á Bessastöðum í gær
„Mér fannst hann vera í svolitlu freyðivíns-fjölmiðlabaði. Ég verð að segja eins og er," segir Atli Gíslason, þingmaður utan þingflokka og meðlimur Vinstri grænna, um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, sem hélt blaðamannafund í gær um niðurstöðu Icesave-kosninganna. „Hann var eitthvað svo glaður, barnslega glaður, og hann var í mjög sterkum pólitískum málflutningi," segir Atli.

Atli var gestur þáttarins Í bítið í morgun á Bylgjunni þar sem hann og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddu niðurstöðu kosninganna.

Atla finnst Ólafur Ragnar hafa gengið mun lengra en fyrir forsetar þegar kemur að pólitískum afskiptum. „Hann var að tala mjög pólitísk og gekk lengra en fyrirrennarar hans hafa gert," segir Atli. „Hann var í díalóg við ríkisstjórn, hann var í deilu við forystumenn atvinnulífsins. Hann gekk mjög langt," segir hann.

Ragnheiður segir það afar sérstakt að forsetinn hafi boðað til blaðamannafundar daginn eftir kosningarnar, sem voru haldnar í framhaldi af því að hann sjálfur neitaði að staðfesta Icesave-samninginn.

Ragnheiður benti á að Icesave hefur klofið þjóðina í tvær fylkingar. „Mér fannst þetta persónulega ekki eiga við," segir Ragnheiður. Henni hefði fundist fara betur á því að ef forsetinn ætlaði að halda blaðamannafund um málið, að hann héldi hann síðar, en Ólafur Ragnar hélt sinn fund skömmu eftir að blaðamannafund ríkisstjórnarinnar. Þannig fannst Ragnheiði blasa við að ekkert samstarf hefði verið á milli skrifstofu forsetans og forsætisráðuneytisins.

„Margt af því sem hann sagði var hins vegar mjög gott," segir hún.

Umræður þeirra Atla og Ragnheiðar Í bítinu má hlusta á heild sinni með því að smella á tengilinn hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×