Þetta sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, á Facebook í gær í tilefni af setningu Alþingis. Skaut hún fast á deilur flokka um pláss í þinghúsinu og sagði fæsta sjúklinga á bráðamóttökunni hafa herbergi yfir höfuð og marga liggja á ganginum, „með tærnar í höfuðið á næsta sjúklingi“.
Lengi gæti vont versnað og ótrúlegt hvernig tekist hefði að fjölga sjúklingum í sama plássinu.
„Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn í setuverkfall til að halda þingflokksherberginu en sem betur fer tókst að lenda deilunni áður en til þess kom. Ég veit um starfsfólk sem væri alveg til í að fara í setuverkfall fyrir mun færri fermetra en þingmenn hafa og þá ekki einu sinni fyrir sig sjálft heldur sína sjúklinga,“ segir Guðbjörg.
„En vonandi kemur ekki til þess enda ætla ég að alþingismenn séu, eins og starfsfólk Bráðamóttökunnar, mikið dugnaðarfólk sem ætlar nú að standa vaktina og redda þessu (og vinna þó í margfalt betri aðstæðum) og því treystum við öll.“