Sport

Umdeilt rothögg Mayweather gegn Ortiz

Stefán Árni Pálsson skrifar
Floyd Mayweather yngri er enn ósigraður í hnefaleikaheiminum eftir að hafa rotað Victor Ortiz í MGM höllinni í Las Vegas í gær. Rothöggið kom í fjórðu lotu en þá náði Mayweather föstum hægri krók í Ortiz sem náði ekki að snúa til baka í bardagann.

Atvikið var í meira lagi umdeilt þar sem stuttu áður hafði Ortiz skallað Mayweather í andlitið. Ortiz gekk alveg óvarinn í áttina að Mayweather til að biðjast afsökunar, en þá tók bandaríski boxarinn upp á því að láta höggin dynja á Ortiz.

Virkilega óíþróttamannsleg framkoma og það mátti heyra í höllinni og áhorfendur voru allt annað en sáttur við framkomuna.

Mayweather hefur nú unnið 42 bardaga án þess að tapa sem er magnaður árangur sem fáir geta státað sig af, þrátt fyrir að Mayweather hafi unnið á heldur óheiðarlegan hátt þá hafði hann mikla yfirburði í þær fjórar lotur sem bardaginn stóð yfir í.

„Ég vann þennan bardaga á frekar lélegan hátt. Reglurnar segja til að hnefaleikamaður á að vernda sig á öllum stundum og það gerði hann ekki," sagði Mayweather eftir bardagann í gær.

Hægt er að sjá myndband af atvikinu umdeilda hér að ofan.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×