Viðskipti innlent

ESB aðstoðar við afnám gjaldeyrishafta

Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og gjaldeyrismála hjá Evrópusambandinu, lýsti yfir ánægju með stefnu íslenskra stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta og hét stuðningi framkvæmdastjórnar ESB við hana á fundi með Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Brussel fyrr í dag.

Olli og Árni Páll hittust í tilefni af nýútkominni skýrslu um þróun efnahagsmála á Ísland til ársins 2013, að því er fram kemur á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Á fundinum lagði Olli áherslu á að efnahagsáætlun Íslands væri á góðri leið og að jafnvægi hefði náðst í efnahagslífinu. Hann fagnaði því að samkomulag hefði náðst í deilu Íslendinga, Breta og Hollendinga um innistæðutryggingar vegna Icesave reikninganna.

Þá sagði Árni Páll það vera eitt lykilmarkmið umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu að fá aðild að Evrópska myntbandalaginu og taka upp evru sem gjaldmiðil. Hann fagnaði stuðningi Olli við stefnu stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta og tilboði hans um tæknilega aðstoð í þeim efnum.

Á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB er hægt að horfa á upptöku frá blaðamannafundinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×