Innlent

Fjárhagslegt öryggi Sólheima ekki tryggt

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í morgun að íslenska ríkið hefði vanefnt skuldbindingar sínar samkvæmt þjónustusamningi með því að skerða fjárframlög til Sólheima. Guðmundur Ármann Péturson, framkvæmdastjóri Sólheima, segir reksturinn ekki enn hafa verið tryggðan.

Ákveðið var að skera fjárframlög félagsmálaráðuneytisins til Sólheima, sem þjónustar fólk með þroskahömlun, niður um fjögur prósent, eða ellefu milljónir króna í fjárframlögum 2009, þrátt fyrir að þjónustusamningur, sem gerður var árið 2004, væri enn í gildi. Á sama tíma þurfti engin önnur sambærileg stofnun að þola slíkan niðurskurð.

„Nú er það tekið fyrir dómi í dag og staðfest að það var rangt að mismuna fötluðum, og auðvitað er það léttir að fá það fram. En leitt að sjá þessa framamenn í íslensku þjóðfélagi verða dæmda fyrir að mismuna fötluðu fólki." sagði Guðmundur um málið, en íslenska ríkið var dæmt til að greiða Sólheimum tvær milljónir króna í málskostnað.

Í dómnum er þó ekki kveðið á hvort eða hversu háa upphæð ríkið þurfi að greiða stofnuninni til viðbótar. Þó er ljóst að Sólheimar hafa orðið af ellefu milljónum á ári vegna niðurskurðarins, eða sem nemur þrjátíu og þremur milljónum. Guðmundur segir réttlætið hafa náð fram að ganga í dag en að fjárhagslegt öryggi Sólheima sé ekki tryggt. Hann telur nauðsynlegt að málið verði leyst hið snarasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×