Innlent

Laugavegur verður göngugata til 7. ágúst

Mynd HAG
Stjórn Miðborgarinnar okkar lýsir í bréfi til borgarráðs Reykjavíkur sérstakri ánægju með samstarfið við borgaryfirvöld við útfærslu á Laugavegi sem göngugötu.

Til stóð að Laugavegur allur yrði opnaður fyrir bílaumferð nú um mánaðarmótin en verslunarmenn við götuna óskuðu eftir því að hann yrðu lokaður lengur.

Borgarráð ákvað á fundi sínum í dag að verða við þessari beiðni og verður hluti Laugavegar því göngugata til 7. ágúst.

Jafnframt veitti borgarráð leyfi fyrir götuhátíð á skólavörðustíg dagana annan til sjöunda ágúst, en þá verður gatan lokuð frá Bergstaðastræti að Bankastræti.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að á þeim tíma sem Laugaveginum frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg var breytt tímabundið í göngugötu hefur mannlífið fengið að blómsta. Meðal annarra hefur hópurinn Mako Mar unnið á svæðinu og sett inn litlar skemmtilegar innsetningar sem lífga upp á götuna ásamt því að standa fyrir margvíslegum uppákomum. Þá fengu þau leikskólabörn til þess að koma og skreyta götuna og leika sér á bíllausri götunni. Einnig var haldið „götupartý" einn laugardag í júlí.

 

Framhald skoðað í ljósi reynslunnar

Fylgst er með hvaða áhrif breytingin hefur og talningar hafa sýnt að fleiri gangandi og hjólandi nota Laugaveginn eftir breytinguna.

Hópurinn Borghildur hefur rannsakað mannlífið í miðbæ Reykjavíkur og fylgst með breytingunni á Laugavegi. Viðbrögð borgarbúa eru skoðuð og efni miðlað reglulega í gegnum heimasíðu Borghildar með myndböndum, hljóðbrotum, pistlum og kortum. Á heimasíðu Borghildar er að finna nánari upplýsingar.

Mánudaginn 8. ágúst verður síðan opnað fyrir bílaumferð á ný bæði niður Skólavörðustíg og Laugaveg, og verður skoðað í ljósi reynslunnar hvernig framhaldið verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×